14. október
Sauðamessulagið


Nú er lag að koma sér í réttu stemninguna fyrir Sauðamessu, með því að hlusta á glænýja útsetningu hljómsveitarinnar Festivals á Sauðamessulagi Bjartmars Hannessonar.

 

14. október
Dagskrá

Dagskrá Sauðamessu er nú aðgengileg hér á vefnum. Dagskráin hefst með fjárrekstri um götur Borgarness og við taka stanslaus fjármál fram eftir degi og fram á nótt. Sjá nánar hér.

13. október
Fríar sætaferðir úr Borgarnesi á réttarball

Athygli heimsbyggðarinnar, og þó Borgarbyggðarinnar sérstaklega, er vakin á því að í tengslum við Sauðamessu verður haldið ball ársins, þar sem hljómsveitin Festival með trymbilinn síkáta Sigurþór Kristjánsson í fararbroddi mun fara hamförum á RÉTTARBALLI í nýju REIÐHÖLLINNI í Borgarnesi.  

Að kveldi SAUÐAMESSU verður boðið upp á ÓKEYPIS sætaferðir með SÆMUNDI úr BORGARNESI og aftur til baka að balli loknu.
Fyrsta ferð úr Borgarnesi fer kl. 22:30 frá DÚSSABAR, stoppað verður á gatnamótum Borgarbrautar og Böðvarsgötu, á móts við Hyrnuna og við strætóskýlin á leið út úr bænum.   Ferðir verða kl. 22:30, 23:00 og 23:30.  Heimakstur hefst frá Réttarballi kl. 01:30 og stendur til 02:30 eða eins og þörf krefur.
Nýtið ykkur topp þjónustu á engu verði í kreppunni!!!!

 

13. október
MESSUBOÐ -
SAUÐAMESSA 2009

Borgfirðingar ætla að verða við kröfu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og leggja fram fjárskuldbindingar í formi lausafjár sem rekið verður eftir götum Borgarness n.k. laugardag þann 17. október.

Messugjörð hefst formlega  með fjárrekstri frá Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi kl. 13.30 að staðartíma. Viljum við biðja íbúa og gesti um aðstoð við að verja heimalönd íbúa við Borgarbraut, Þorsteinsgötu og Skallagrímsgötu en það er sú leið sem farin verður með fjárreksturinn þetta árið.  Í og við Skallagrímsgarð verður síðan hátíðardagskrá fram eftir degi.
Í Skallagrímsgarði verður ærlegt markaðstorg og á sviði verður stanslaus dagskrá milli kl. 14.02 og 16.03.  Meðal annarra Bakkabræður og Bakkasystur, fegurðasamkeppni MÝRAHRÚTA, Siggi Óli og Bankaæringjarnir, hið árlega lærakappát þar sem Baldur Jóns á margfaldan tiltil að verja, Eva Margrét og Katarína, dansandi sveitastrákar ofl, ofl.
Ýmis konar afþreying í boði í garðinum á meðan á dagskrá stendur.

Öllum gestum verður boðið upp á ókeypis kjötsúpu í boði sauðfjárbænda í héraði sem Raftar, einnig úr héraði, sjá um að framreiða við Tónlistarskóla Borgarfjarðar.

6. október 2009
Sauðamessa

Hér gefur að líta það helsta sem í boði verður á sauðamessu 2009, látið þetta fjármálatækifæri ekki fram hjá ykkur fara. Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu.

 

5.október 2009
Hlöðuball ársins !

Sauðamessu 2009 líkur með Hlöðudansleik í Reiðhöllinni Vindási.  Hljómsveitin Festival leikur fyrir dansi frá kl. 22:00 til 02:00.
Aldurstakmark 16 ár.
Miðaverð: 2,500,-

 

 

5.október 2009
Sauðamessa 2009

Vegna stigvaxandi þrýstings frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðunum, Landbúnaðarnefnd Evrópusambandsins, Samtökum fjárfesta og fjölda annarra hagsmunaaðila, vina vandamanna og velunnara, hefur verið ákveðið að blása enn einu sinni til Sauðamessu í Borgarnesi. Messað verður í Skallagrímsgarði laugardaginn 17. október og hefst messugjörð formlega með fjárrekstri frá Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi kl. 13.30 að staðartíma. Á annað hundrað fjár verður þá rekið í gegnum Borgarnes eftir ýmsum krókaleiðum og í rétt sem verður rétt við Skallagrímsgarð. Í og við garðinn verður síðan hátíaðardagskrá fram eftir degi.
Á dagskránni verða fjölmörg kindarleg skemmtiatriði og, líkt og fyrri ár, verður boðið upp á ærlegt markaðstorg. Þar geta falboðið sinn varning, allir þeir sem á einhvern hátt geta tengt sig við sauðkindina. Þá viljum við gjarnan fá til leiks sem flesta bændur er stunda heimavinnslu afurða, jafnvel þótt hráefnið geti ekki jarmað. Grænmetisbændur eru einnig boðnir hjartanlega velkomnir enda er sauðkindin græmetisæta!
Margvísleg afþreying verður í boði. Meðal annars keppni í fjárdrætti (sem er reyndar að verða úr sér gengið atriði vegna fjölda fagmanna í þeirri grein), íslandsmótið í sparðatýningi, keppni í að teygja lopann, leitin að nál í heystakki og ýmislegt fleira sem nánar verður kynnt síðar.
Öllum gestum verður boðið upp á ókeypis kjötsúpu í boði sauðfjárbænda í héraði sem Raftar, einnig úr héraði, sjá um að bera fram.
Dagskrá Sauðamessu lýkur með réttarballi um kvöldið í Reiðhöllinni Vindási, danshljómsveitin Festival leikur og spilar.

Varðandi sölubása og aðstöðu í tjöldum þá er það Hlédís Sveinsdóttir sem sér um skráningu, síminn hjá Hlédísi er 892-1780, netfang: hlediss@gmail.com

Sauðamessa 2009 – Fyrir Sauðsvartan almúgann.

 

7. október 2008
Sauðakveðja að messu lokinni

Aðstandendur Sauðamessu í Borgarnesi, sem haldin var síðastliðin laugardag, vilja koma á framfæri innilegum þökkum til þeirra fjölmörgu sem notuðu þetta tækifæri til að rækta sauðinn í sjálfum sér. Við þökkum sérstaklega öllum þáttakendum í hátíðinni, skemmtikröftum, skátum, björgunarsveitarmönnum, verktökum, markaðsfólki og aðstandendum tómstundastarfs í Borgarbyggð sem kynnt var með pompi og prakt á hátíðinni. Að sjálfsögðu líka öllum þeim sem lögðu messunni lið með einum eða öðrum hætti.
Síðustu vikur og mánuði hafa allir sem leitað hefur verið til verið boðnir og búnir að aðstoða við undirbúning Sauðamessu með einum eða öðrum hætti. Líka þeir sem ekki hefur verið leitað til því fjölmargir buðu fram aðstoð að fyrra bragði. Við þökkum öllum þeim sem lögðu fram ómælda sjálfboðavinnu til að gera þessa hátíð að veruleika. Ekki síður þeim sem lögðu til tæki tól og ýmiskonar aðstöðu og síðast en ekki síst þeim sem lögðu fram rekstrafé (hvort sem var í seðlum eða á fæti).
Þótt við Borgfirðingar höfum lengi þótt sauðslegir í háttum þá hefur aldrei verið jafn mikill sauðasvipur á Borgarnesi og síðastliðinn laugardag. Garðar, íbúðarhús og fyrirtæki voru skreytt í bak og fyrir og vakti þetta tiltæki verðskuldaða athygli. Talið er að á fimmta þúsund manns hafi lagt leið sína í Skallagrímsgarð á laugardaginn og ekki laust við að örlaði á brosi hér og þar og það eitt réttlætir þessa hátíð fyllilega. Þá var uppselt á hlöðuball í Reiðhöllinni þar sem hljómsveitin Upplyfting fór á kostum.
Að endingu þökkum við veðurguðunum fyrir ánægjuleg viðskipti.
Með sauðakveðju
Borgfirskir sauðir

3. október
FRÍAR SÆTAFERÐIR ÚR BORGARNESI Á HLÖÐUBALL

Athygli heimsbyggðarinnar, og þó Borgarbyggðarinnar sérstaklega, er vakin á því að í tengslum við ball ársins, þar sem hljómsveitin UPPLYFTING mun fara hamförum á HLÖÐUBALLI í nýju REIÐHÖLLINNI í Borgarnesi að kveldi SAUÐAMESSU verður boðið upp á ÓKEYPIS sætaferðir með SÆMUNDI úr BORGARNESI og aftur til baka að balli loknu.
Sæmundur verður stanslaust á ferðinni eftir þörfum en fyrsta ferð úr Borgarnesi fer kl. 21.50 – Fyrsta stopp er við Landnámssetrið þá við Skallagrímsgarð, Hyrnuna og Vinakaffi – Ef sauðirnir eru 10 eða fleiri er hægt að panta rútuna heim á hlað (í síma 899 4098 –Gísli eða 660 8245 – Bjarki)
Nýtið ykkur topp þjónustu á engu verði í kreppunni!!!!
sæmi.jpg
Athugið að HLÖÐUBALL hefst kl. 22.00 stundvíslega og stendur það til kl. 02.00.. Aldurslágmark er 16 ár. – AldursHÁMARK er EKKERT.

Athygli er vakin á að ekki er selt vín á staðnum, aðeins óáfengir drykkir, samlokur ofl. – Þeim sem aldur hafa til er hinsvegar ekki meinað að hafa með sér sterkari drykki.

ATHUGIÐ ENNFREMUR AÐ SNYRTILEGUR KLÆÐNAÐUR ER BANNAÐUR

LJÚKUM SAUÐAMESSU MEÐ STÆL Á HLÖÐUBALLI!
SAUÐIRNIR

1. október
Sauðadiskur og smalabiti

Veitingamenn og verslunareigendur á stór Borgarnessvæðinu eru óðum að komast í sauðagírinn fyrir komandi helgi. Við bendum t.d. á að hannyrðaverslunin Handavinnuhúsið að Brákarbraut 3 hefur tekið á sig skemmtilegan sauðasvip en þar er hrútasmalamennskum greinilega lokið og búið að stilla kynbótahrút bæjarins upp úti í glugga.
Geira bakarí ætlar að bjóða upp á sérstakan sauðadisk á tilboðsverði en hann samanstendur af, flatköku með hangikjöti, skonsu með osti, rúgbrauði með kæfu, kleinu og svo kaffi með.
Þá ætlar Olís við Brúartorg að vera með sérstakt tilboð á Smalabita (Sheepheard choice) í tilefni dagsins.
Borgarnes er sauðabærinn!!!!

30. september
Fréttir úr fjármálaheiminum

Á þessum síðustu og verstu tímum þegar á landanum dynja fréttir af gengislækkunum, hruni bankastofnana og gjaldþrotum fyrirtækja þykir okkur á saudamessa.is ástæða til þess að hampa þeim miðlum sem flytja fréttir úr hinum raunverulega fjármálaheimi. Á mbl.is má finna frétt af bræðrum frá Ytri -Sólheimum sem smöluðu Hvítmögu á dögunum. En þangað fer aðeins þeirra uppáhaldsfé ár hvert. Fréttina má sjá í heild sinni hér.
En fyrir þá sem vilja þrátt fyrir allt fylgjast með fréttum þessa dagana, bjóðum við á saudamessa.is upp á sauðaorðabók hér á vefnum sem ætti að auðvelda fólki að skilja hinn flókna orðaforða er tengist fjármálunum. Þar má finna útskýringar á orðum eins og lausafjárstaða, fjárstreymi, hlutafé, fjárfesting, fjármálaeftirlit og margt fleira. Til þess að nota orðabókina smellir þú á hnappinn Sauðaorð hér á vinstri kantinum.

28. september
Gærusala í Yfir 46 á Sauðamessu

Verslunin Yfir 46, Borgarbraut 55, í Borgarnesi  býður upp á alklæðnað fyrir ær í tilefni af sauðmessu, þ.e. sauðagærur á tilboði,.Gærurnar eru til í stærðum 46 og yfir.  Einnig í boði, líkt og ávallt, tískufatnaður fyrir konur af öllum stærðum og gerðum.

Í tilefni dagsins verður opið frá klukkan 12.00 – 18.00. – Réttarkaffi í boði fyrir viðskiptavini.
Heimsókn í Yfir 46 er ferð til fjár!!

25. september
Ærið verk fyrir höndum

Óþreyjufullir tilvonandi Sauðamessugestir geta nú stytt sér stundir á netinu meðan beðið er eftir stóru stundinni, þegar Sauðamessa 2008 verður sett með pompi og prakt. Veraldarvefurinn er smekkfullur af sauðslegri afþreyingu af ýmsum toga og verður hér tæpt á nokkrum þeirra.

Hinn þekkti hrútur, Hreinn frá Bristolhreppi, er íslendingum af góðu kunnur. Hann hefur getið sér gott orð í sjónvarpi allra landsmanna og er jafnvel orðinn fyrirmynd presta og annarra heldri manna.
Hreinn á sinn opinbera vettvang á netinu, þar sem hrúturinn býður upp á fjölbreytta afþreyingu. Þar má til dæmis spreyta sig sem smalahundur, fela kindur, púsla, brjóta heilann yfir Hrúta-sudoku, horfa á teiknimyndir, fá kindarlegar föndurhugmyndir og síðast en ekki síst fræðast um hvernig Landroverinn í þáttunum var búinn til.

Víða annars staðar á vefnum má finna leiki tengda sauðfjárbúskap. Þar má til dæmis spreyta sig í smalamennsku í The sheep game, hjálpa týndum sauðum yfir umferðargötur í sheepish, og sprauta í rollur deyfilyfjum í the shooting sheep game.

Að lokum má geta þess að á youtube.com má rifja upp nálgun Monty Pythons á viðfangsefninu sauðfé í tilvistarkreppu.

25. september
Sparisjóðurinn styrkir Sauðamessu

Sparisjóður Mýrasýslu styrkir Sauðamessu 2008 með myndarlegum hætti og er, ásamt Orkuveitu Reykjavíkur, stærsti styrktaraðilinn þetta árið. Sauðamessuhaldarar fagna samstarfi við fjármálafyrirtæki í héraði enda snúast væntanleg hátíðahöld fyrst og síðast um fé!
Á myndinni innsigla Bernhard Bernhardsson, Sparisjóðsstjóri og Gísli Einarsson, sauður, samkomulag um aðkomu Sparisjóðsins að Sauðamessu 2008.

24. september
Sviðaveisla í Vinakaffi

Í tilefni af Sauðamessu 2008 þann 4. oktober n.k. verður Sviðaveisla daglangt í veitingastaðnum Vinakaffi í útjaðri Borgarness. Þar verður boðið upp á svið og rófustöppu og síðan kaffi og „Kúaslettu“ á eftir. Vinakaffi verður opið frá kl. 12.00 – 21.00 á laugardag og því er lofað að þar fái enginn sviðsskrekk í sviðaveislunni.

23. september
Sauðasvipur á bæinn

"Morgunrollurnar" hafa tekið að sér að setja sauðasvip á bæinn. Þær vilja koma á framfæri eftirfarandi skilaboðum:

Bæjarbúar eru hvattir til að skreyta húsin sín með öllu mögulegu sem tengist hátíðinni, ljósaseríur út í tré, borðar,horn, kjammar, gærur o.fl. Morgunrollurnar ferðast um bæinn um hádegisbil á laugardeginum og velja frumlegustu sauðhúsaskreytinguna.
Verðlaun í boði heimalningana verða svo veitt seinna um daginní Skallgrímsgarði þar sem sauðamessan fer fram.

Veitið hvort öðru góða samkeppni með því að taka þátt!

23. september
Hlöðuball á Sauðamessu
Hin ærlega hljómsveit, Upplyfting leikur fyrir dansi

Í tilefni af þvi að fé er af fjalli komið og lömb hafa verið leidd til slátrunar verður efnt til stórdansleiks á kvöldi Sauðamessu, þann 4. október n.k í hinni nýju reiðhöll í hesthúsahverfinu ofan við Borgarnes. Dansleikurinn stendur frá 22.00 – til 02.00 og er aldurstakmark 16. ár Hin vel erna, fágaða  og þokkafulla hljómsveit Upplyfting leikur fyrir villtum dansi og frumflytur nýtt Sauðalag.
Athygli er vakin á því að áfengi verður ekki selt á staðnum en það ber ekki að túlka sem fordóma gagnvart hóflega drukknu víni.
Miðaverð er kr. 2000, -

23. september
Frá ferðaþjónustu bænda, Bjargi, í tilefni af Sauðamessu

Laugardaginn 4. október veitir Ferðaþjónusta bænda Bjargi 30% afslátt af gistingu í gömlu fjárhúsunum,
hægt er að velja um herbergi heimalingsins Móru, ljúflingsins Gæfu eða jafnvel að hafa gamla lambhúsið út af fyrir sig.

21. september
Sauður ársins og ær-ingi ársins - Óskað eftir tilnefningum

Í tilefni af góðum heimtum af fjalli, góðum heyfeng og góðri tíð, góðum fallþunga og góðu skapi,  hefur verið ákveðið að veita nú í haust í fyrsta sinn æðstu viðurkenningar Sauðamessu. Hér með er óskað eftir tilnenfingu í eftirfarandi tvo flokka.

Í fyrsta lagi verður suður  ársins útnefndur á komandi Sauðamessu. Leitað er að einstaklingi (eða tvístaklingi ef því er að skipta) sem sýnt hefur af sér einstakan forystuhæfileika á einhverju sviði og getur því með réttu talist forystusauður. Hverskonar sauðsháttur annar réttlætir einnig tilnefningu.

Í öðru lagi verður ær – ingi ársins krýndur á sömu Sauðamessu. Til greina koma allir þeir sem hafa ærlega látið í sér heyra, orðið ærir við eitthvað tilefni,  skapað ærin vandræði, eða þeir sem eru fjölærir svo eitthvað sé nefnt..

Óskað er eftir tilnefningum í báða þessa flokka á netfangið saudamessa@saudamessa.is. Úrslit verða síðan kunngjörð á Suðamessu 2008 þann 4. október næstkomandi í Skallagrímsgarði.

19. september
Af bændum úr héraði

Á salernisaðstöðu á fínum veitingastað standa viðskiptafræðingur, lögfræðingur og bóndi hlið við hlið og nota pissuskálarnar.

Viðskiptafræðingurinn klárar, rennir upp og byrjar að þvo, eða bókstaflega skrúbba á sér hendurnar....alveg upp að olnbogum. Notaði síðan um það bil 20 bréf til að þurrka sér. Hann snýr sér að hinum og segir: " Ég gekk í Harvard, þar kenndu þeir okkur að vera hreinlegir."

Lögfræðingurinn kláraði og bleytti fingurgómana, greip eitt bréf og sagði:" Ég lærði í Princeton, þar kenndu þeir okkur að vera umhverfisvænir."

Bóndinn renndi upp og á leiðinni út segir hann:"Ég lærði á Hvanneyri, þar var okkur kennt að pissa ekki á puttana á okkur"!

17. september
Laufáshópurinn

Laufáshópurinn er hópur fólks sem vinnur að því að viðhalda þekkingu á þjóðháttum landsins hvort sem er í handverki, tónlist, sagnahefð eða náttúru. Á vef Laufáshópsins má finna afar gagnlegan og skemmtilegan fróðleik um sauðkindina frá fyrri tíð.

13. september
Klókar kindur

Kindur á Yorkshire heiðunum á Englandi hafa valdið nokkrum usla þar sem þær hafa þróað með sér nýstárlegar aðferðir til að velta sér yfir 3ja metra háar nautgripagirðingar úr járni. Kindurnar herja á garða, krikketvelli, kirkjugarða og meira og minna allt sem vænt er og vel grænt.
Dorothy Lindley, sjónarvottur lýsti atferli kindanna þannig: "Þær leggjast á hliðina eða bakið og rúlla sér á girðingarnar þangað til þær gefa eftir". Það sem gerir málið enn erfiðara er að það virðist algjörlega útilokað að reka kindurnar burtu. "Þær haggast ekki einu sinni þótt hundum sé sigað á þær heldur horfa á mann eins og maður sé algjör bjáni" sagði Lindley jafnframt.
Talsmaður Alþjóða fjármálasamtakanna, National Sheep association, sagði kindur vera klókari skepnur en almennt væri talið.
Meira má lesa um málið á vef BBC.

10. september
Sauðamessa 2008 í Borgarnesi

Laugardaginn 4. október næstkomandi verður blásið til Sauðamessu í Borgarnesi í þriðja sinn. Þar gefst öllu mannkyni kostur á að koma og rækta tengslin við sauðinn í sjálfum sér. Hátíðin verður að þessu sinni í Skallagrímsgarði, sem er vannýtt afréttarland í hjarta Borgarness. Setningarathöfnin hefst um klukkan þrettán þrjátíu að staðartíma með fjárrekstri frá Dvalarheimilinu í Borgarnesi, eftir Borgarbrautinni sem leið liggur að Skallagímsgarði og inn í rétt sem verður rétt við garðinn. Þar gefst almenningi kostur á að ganga inn í almenninginn svo fremi menn hagi sér almennilega.
Stanslaus dagskrá verður á sviði (lambasvið) fram eftir degi þar sem fram koma meðal annarra kunnir smalar úr héraði, Björgvin Frans Gíslason, fjármaður úr Reykjavíkurhreppi, Hinir sauðmeinlausu Hvanndalsbræður, sauðfjárbændur af Ströndum, Danshópurinn Sporið sprettir úr spori,  ungi víkingurinn Þórður Brynjarsson (7 ára) kveður sér hljóðs, nýjasta sauðtískarn verður til sýnis ofl, ofl, ofl.
Þá verður efnt til landskeppni í eftirfarandi ólympíugreinum: í sparðatíningi, í að teygja lopann, leita að nál í heystakki, fjárdrætti, lærisáti, hói og köllum og ýmsu fleiru.

SMALAHUNDASÝNING þar sem alvöruhundar smala alvöurkindum eins og best gerist. Auk þess stendur fyrirtækið Eigið fé ehf fyrir fegurðarsamkeppni þar sem smalalegasti  sauðamessugesturinn verður sæmdur smalaprikinu og hlýtur að launum fósturkind. Einnig gefst öllum Evrópubúum kostur á að gerast kindavinir á sauðamessu.

Eins og á fyrri messum verður frí kjötsúpa í boði fyrir alla sauðamessu gesti.

Í sölutjöldum í Skallagrímsgarði verður boðið upp á kjöt af dauðu sauðfé, ýmiskonar handverk tengt eða ótengt sauðum, grænmeti og ýmsar aðrar afurðir úr sveitinni.
Fjölbreytt afþreying verður í boði fyrir unga sem aldna allt frá neftóbaksnámskeiði til glímukennslu en tekið skal fram að ekki verða “hoppukastalar á staðnum” né Candyfloss (nema það sé í sauðalitunum)
Þá má nefna að í tilefni af Sauðamessu verður efnt  til kjötsúpukeppni meðal veitingahúsa á Vesturlandi.

Síðast en alls ekki síst ber að nefna að Sauðamessu 2008 líkur með stórkostlegu réttarballi í nýrri reiðhöll Skugga í útjaðri Borgarness,  Þar geta allir sem náð hafa sextán ára aldri skvett ÆRLEGA úr klaufunum.

Dagskráin er enn í mótun og allir sem áhuga hafa á að taka þátt í hátíðahöldunum með einum eða öðrum hætti eru hvattir til að hafa samband. Þeir sem áhuga hafa á að selja eða kynna sínar vörur og/eða þjónustu eru beðnir um að hafa samband við, Hlédísi Sveinsdóttur s. 892 1780. En hún hefur umsjón með sauðamarkaðinum.
Einnig er hægt að fylgjast með og hafa samband í gegnum vef sauðamessu, saudamessa.is

Sauðir allra landa sameinist á Sauðamessu 2008.

Borgfirskir sauðir
Bjarki Þorsteinsson
Gísli Einarsson

4. september 2008
Fjármálastjórnun

Í háskólanum í Utah, Utah State University, er nú boðið upp á vandaðan námsáfanga í fjármálastjórnun. Áfanginn ber heitið Lambing and Sheep Management og fjallar meðal annars um lífsþrótt lamba, eyrnamörk, takmörkun sjúkdóma í sauðfé og fleira áhugavert. Nánari upplýsingar um námið má finna á vef Utah State University.

1. september 2008
Sauðamessa 2008

Sauðamessa verður haldin í Borgarnesi 4. október næstkomandi. Dagskráin verður í senn sauðsleg og kindarleg og má því búast við því að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Fylgist með hér á vefnum því nánari upplýsinga, ásamt ofgnótt af fánýtum fróðleik, er að vænta á næstu dögum.

 

- Að síðan kindur voru tamdar og gerðar að húsdýrum fyrir um 12.000 árum hefur heili þeirra minnkað, ullin orðið umfangsmeiri og breyst frá brúntóna litum í hvíta og svarta liti. Eyrun þeirra lafa meira og hornin eru veikari.
meira

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Sauður vikunnar er Otur frá Leirhöfn í Þingeyjarsýslu